Skólastefna

Gerðaskóli starfar samkvæmt skilgreiningu um skóla án aðgreiningar sem felur í sér viðurkenningu á einstaklingsmun og rétti hvers nemanda til að stunda nám innan félagsheildar bekkjarins samkvæmt námskrá og með aðferðum sem styrkja sjálfsmynd hans og auka sjálfstæði. Skóli án aðgreiningar er ekki sérmál einstakra kennara heldur skólasamfélagsins alls.

Skólastefna Gerðaskóla lýtur að nemendum og námi þeirra, þ.e. hlutverki skólans sem grunnskóla. Í Gerðaskóla eru aðstæður eins öruggar og uppbyggjandi og kostur er svo hver nemandi fái kennslu við hæfi og þroskist í samræmi við getu. Fjölbreyttni í skólastarfinu er mikilvæg til þess að ná til allra nemenda þegar skipuleggja þarf nám við hæfi hvers og eins. Þegar nemandi víkur frá námskrá árgangs koma allir aðilar að skipulaginu, þ.e. aðilar skóla, foreldrar/forráðamenn og nemandi eftir atvikum. 

Samfélagið í Garði vill að börn og ungmenni búi við bestu skilyrði til menntunar og uppvaxtar, til að fylgja eftir þeim markmiðum er mikilvægt að til staðar sé skýr stefna um málefnið.  Skólastefna Garðs fyrir árin 2014 - 2020 segir til um það hvað Garðbúar leggja áherslu á og hvaða skref verða stigin til þess að ná settum markmiðum.  Skólastefna Garðs nær yfir öll skólastigin; leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla, auk æskulýðsstarfsins.  Stefnan byggir upp skuldbindingu og traust og er öflug hvatning til umbóta.  Aðgerðaáætlun er hluti af skólastefnunni, sett fram í þeim tilgangi að unnið sé markvisst að settum markmiðum.

Skólastefna Garðs var unnin af sérstökum stýrihópi sem hélt utan um og vann skólastefnuna.  Liður í því starfi voru skólaþing, þar sem leitað var eftir hugmyndum og tillögum íbúanna sem innlegg í mótun stefnunnar.  Leikskólabörn og nemendur Gerðaskóla héldu sín skólaþing, einnig var íbúum Garðs boðið til sérstaks skólaþings.  Skólaþingin tókust vel og frá þeim komu mikilvæg innlegg í vinnslu skólastefnunnar.  Góð samstaða var við vinnslu skólastefnunnar og um niðurstöðuna, sem er mikilvægt og gott upplegg til þess að stefnan gangi vel eftir.

Skólastefna Garðs 2014 - 2020 var samþykkt í bæjarstjórn Garðs þann 18. júní 2014.

Verið er að vinna í nýrri fræðslu- og frístundastefnu fyrir Suðurnesjabæ sem verður tilbúin í lok árs 2022.