Séra Sigurður Brynjólfsson Sívertsen stóð fyrir stofnun barnaskóla í Gerðum, árið 1871. Aðdragandinn að stofnun skólans var nokkuð langur, en það var fyrst upp úr 1860, að séra Sigurður fór að ræða við héraðsbúa um stofnun hans. Presturinn lagði sjálfur fram fé til byggingar skólans auk þess sem hann gekk á undan góðu fordæmi í því að safna fé til skólans bæði til byggingarinnar og til þess að hægt væri að halda skólastarfinu áfram. Kaupmenn í Keflavík gáfu fé, en mestu munaði það sem bændur hér gáfu. Það vildi svo vel til að vel áraði, svo að flestir gátu gefið eitthvað fé, og svo unnu margir kauplaust við bygginguna.
Veturinn 1871-72 gengst Sigurður fyrir því að bændur í Garði hlaði veggina í skólann í Gerðum. Voru það heljar þykkir veggir úr grjóti, utan og innan og sandur á milli. Auk aðalhússins voru byggð baðstofa með þriggja rúma lengd, þrjú rúm hvoru megin, var hún upphaflega ætluð börnum sem sóttu skólann lengra að. Aftan við hana var feykimikið eldhús handa skólanum. Þessar byggingar stóðu þar sem nú heitir í Fjósum eða Skúlhúsum. Húsaskipan var svo háttað, að tvær kennslustofur voru niðri og loft uppi til íbúðar fyrir kennara, en efst var hanabjálki. Var byggingunni lokið á öndverðu hausti árið 1872.
Gerðaskóli var svo settur 7. október 1872. Var mikið fölmenni þar saman komið. Hélt séra Sigurður þar skörulega ræðu og skýrði þar meðal annars frá tilætlan sinni og framkvæmdum. Til kennara hafði séra Sigurður valið Þorgrím Þ. Guðmundsson. Prestur fékk kennara í hendur bók þá, er enn er til hér í skólanum og heitir Dagbók barnaskólans í Gerðum. Í þá bók skyldi rita nöfn allra þeirra barna er í skólann gengu, lengri eða skemmri tíma, svo og skýrslu um kennslu hans og yfirheyrslur barnanna að hverri viku liðinni og svo vitnisburð um framför barnanna, gáfur og siðferði.
Nemendur fyrsta skólárið voru 15 talsins. Námsgreinarnar sem kenndar voru í Gerðaskóla fyrstu árin voru, kristindómur (kver og biblíusögur), lestur (nýja testamentið, lestrarbók), skrift (eftir skrift kennarans), réttritun, reikningur. Skólinn stóð til aprílloka fyrstu tvö árin, eftir það ákvað nefndin að skólinn skyldi vera í tveimur deildum og börnum skipt eftir aldri, kunnáttu og þroska, og skyldi skóla vera lokið 14. mars og var þá ákveðið að kennarar skildu vera tveir og stóð svo lengi.
Hætt var að nota bygginguna til skólahalds árið 1887. Síðar var húsið notað sem samkomuhús um áraraðir. Frá 1887 til 1890 var skólinn í leiguhúsnæði í Miðhúsum en fram til 1911 var svo skólinn til húsa að Útskálum og var byggt timburhús yfir hann og stóð það yst á Útskálahólnum. Árið 1910 var svo hafist handa við byggingu skólahúss í Gerðalandi, á stað er skólinn stendur enn í dag. Síðan þá hefur verið byggt við skólann sjö sinnum og haustið 2010 hófst skólastarfið í nýju og nýuppgerðu skólahúsnæði. Er það allt hið vandaðsta og allur búnaður eins og best verður á kosið.