Eins og margir vita tók Gerðaskóli þátt í lestrarkeppni Samróms þar sem upptökum af lestri barna og unglinga var safnað í því skyni að þróa máltæknihugbúnað á íslensku. Gerðaskóli hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í keppninni og tóku fulltrúar nemenda við verðlaununum á Bessastöðum í gær, miðvikudaginn 27. janúar.
Öllum var velkomið að taka þátt í keppninni og voru fjölskyldur nemenda og íbúar í Garði sérstaklega hvattir til að leggja sitt af mörkum. Það er ánægjulegt að segja frá því að alls tóku 401 keppandi þátt fyrir hönd Gerðaskóla og lásu þau 48.145 setningar alls.
Við viljum þakka öllum keppendum; nemendum, starfsfólki, kennurum, fjölskyldum og íbúum í Garði fyrir frábæra samstöðu og metnað í keppninni. Þetta var stórkostlegur árangur og fyrir góðan málstað, verndun og framþróun íslenskunnar.
Áfram Gerðaskóli og íslensk tunga.