Sterkari saman með jákvæðum samskiptum – skólaþing og nemamót

Sterkari saman með jákvæðum samskiptum er yfirskrift skólaþings og nemamóta Gerðaskóla haustið 2024. Nemendur í 6. – 10. bekk taka þátt í nemamótum en skólaþing er opið öllum foreldrum, forráðamönnum og þeim sem hafa áhuga á mótun skólasamfélagsins. Félagsmiðstöðin Eldingin tekur einnig þátt með viðburðum og verkefnum tengdum jákvæðum samskiptum á næstu vikum.

Skólaþing Gerðaskóla fer fram þann 7. nóvember nk. Kl. 17 á sal Gerðaskóla. Við erum ánægð og spennt að bjóða Heimili og skóla velkomin til okkar með erindi og vinnustofu þar sem áhersla er á jákvæð samskipti í skólasamfélaginu. Á skólaþinginu mun nemendaráð kynna niðurstöður nemamóta sem fram fara í lok október.

Undanfarnar vikur hafa nemendur í 6. – 10. bekk undirbúið nemamót sem fram fara þann 30. október nk. Tilgangur nemamóta er að skapa umræðu um jákvæð samskipti og vekja nemendur til umhugsunar um mikilvægi þeirra. Að hver nemandi fái tækifæri til að skoða eigin gildi og setja sér markmið um jákvæð samskipti í skólanum og heima (fjölskyldugildi) og að bekkurinn endurskoði bekkjarsáttmála og setji sér markmið um jákvæð samskipti. Nemamótin fara þannig fram að hver bekkur hittir stjórnendur á sal þar sem fulltrúar bekkjarins kynna niðurstöður vinnunnar.

Við hlökkum til að eiga jákvætt og gott samtal við foreldra, forráðamenn og aðra áhugasama í skólasamfélaginu.