Sterkari saman með jákvæðum samskiptum var yfirskrift skólaþings og nemamóta Gerðaskóla haustið 2024. Nemendur í 6. - 10. bekk tóku þátt í nemamótum en skólaþing var opið öllum foreldrum, forráðamönnum og þeim sem hafa áhuga á mótun skólasamfélagsins. Félagsmiðstöðin Eldingin tók einnig þátt með viðburðum og verkefnum tengdum jákvæðum samskiptum undanfarnar vikur. Fulltrúar nemendaráðs Gerðaskóla kynntu niðurstöður nemamóta á skólaþinginu og fulltrúi Eldingaráðs sagði frá Eldingarsáttmálanum sem unnin var í félagsmiðstöðinni á dögunum.
Á skólaþinginu var fróðlegt erindi frá Heimili og skóla þar sem farið var yfir mikilvægi foreldrasamstarfs meðal annars í forvarnarskyni og hvernig foreldrar geta unnið saman að góðum tengslum sín á milli. Þátttakendur á skólaþinginu unnu saman að farsældarsáttmaál og ræddu leiðir til þess að efla foreldrasamstarfið.
Við þökkum þeim sem tóku þátt á skólaþingi kærlega fyrir samveruna og þeirra framlag. Foreldrasamstarf er afar mikilvægur hlekkur í skólastarfinu og við getum sannarlega verið sterkari saman, með jákvæðum samskiptum.
Sjá myndir frá skólaþingi og nemamóti hér.