Skólaslit Gerðaskóla fóru fram með hátíðlegum brag, föstudaginn 4. júní. Að þessu sinni var bekkjum skólans skipt í þrjá hópa þar sem 1. og 2. bekkur komu saman, þá 3. – 7. bekkur og loks voru skólaslti 8. – 10. bekkjar. Einungis var hægt að bjóða foreldrum 1., 2. og 10. bekkjar að vera viðstödd skólaslitin vegna fjöldatakmarkana sem nú eru í gildi. Að lokinni útskrift 10. bekkinga var boðið uppá kaffihlaðborð fyrir útskriftarnemendur, foreldra og starfsfólk skólans.
Kór Gerðaskóla og Tónlistarskólans í Garði sungu við upphaf og lok athafnanna en í kórnum eru nemendur í 2. – 6. bekk. Þau stóðu sig með stakri prýði og fluttu fallegan og hvetjandi boðskap til nemenda, starfsfólks og foreldra.
Skólaslit eru tími uppskeru, íhugunar um liðið ár og tækifæri til þess að líta fram á veginn. Eva Björk Sveinsdóttir skólastjóri flutti ávarp til nemenda og hvatti þá til þess að setja sér jákvæð markmið fyrir komandi skólaár og framtíðarverkefni, muna að huga að lestrinum í sumar og auðvitað að fara út að leika.
Veittar voru viðurkenningar fyrir miklar framfarir í lestri í 1. – 4. bekk og viðurkenningar í list- og verkgreinum voru veittar í 5. – 7. bekk. Í 8. og 9. bekk voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og í 10. bekk voru veittar viðurkenningar fyrir framfarir í námi, íslensku, stærðfræði, ensku, dönsku, samfélags- og náttúrufræðigreinar og íþróttir. Auk þess voru veittar viðurkenningar fyrir vel unnin störf í þágu skólans. Leikjavinir fengu einnig sérstaka viðurkenningu fyrir þátttöku sína við skipulag og framkvæmd leikja í frímínútum.
Starfsfólk Gerðaskóla þakkar nemendum, foreldrum og forráðamönnum fyrir gott samstarf á skólaárinu sem nú er lokið, með ósk um áframhaldandi jákvæð og uppbyggileg samskipti. Einnig sendum við frábæra útskriftarhópnum okkar innilegar hamingjuóskir. Megi framtíð ykkar verða björt og gleðirík.
Eftirtaldir nemendur hlutu viðurkenningu skólaárið 2020-2021:
Viðurkenning fyrir miklar lestrarframfarir:
Aleksander Cielesz, Charek Seweryn Stosio og Tryggvi Einarsson í 1. bekk.
Auðunn Máni Guðmundsson, Ingimundur Elvar Þórðarson, Ólöf Erla Kristinsdóttir, Stefán Ingi Björnsson, Þóra Margrét Halldórsdóttir og Þröstur Guðmundsson í 2. bekk.
Baltasar Máni Hrólfsson, Jóhann Bragi Freysson og Rakel Máney Rúnarsdóttir í 3. bekk.
Edvin Aron Edvinsson, Eymundur Breki Gunnarsson og Sóldís Rósanna Almarsdóttir í 4. bekk.
Viðurkenning fyrir list- og verkgreinar:
Hrafnkell Máni Másson hlaut viðurkenningu í heimilisfræði fyrir einstaklega vönduð og sjálfstæð vinnubrögð.
Heiðrún Inga Hafdal hlaut viðurkenningu fyrir að skara fram úr við fjölbreyttar aðferðir í textílmennt.
Guðjón Hjörtur Eyjólfsson hlaut viðurkenningu fyrir áhuga og iðjusemi í smíði.
Bartosz Porzezinski hlaut viðurkenningu fyrir áhugasemi og vönduð vinnubrögð í sjónlistum.
Ari Freyr Magnússon hlaut viðurkenningu í heimilisfræði fyrir að vera duglegur, kurteis og sýna vönduð vinnubrögð.
Berglind Harpa Óladóttir hlaut viðurkenningu fyrir að vera áhugasöm og skapandi við verkefnavinnu í textílmennt.
Unnar Sigmundur Magnússon hlaut viðurkenningu fyrir vinnusemi og hugmyndaríki í smíði.
Manúel Jón Machado hlaut viðurkenningu fyrir dugnað og skapandi hugmyndaflug í verkum sínum í sjónlistum.
Kvenfélagið Gefn veitti svo viðurkenningar til nemenda í 7.bekk sem eru að klára sitt síðasta ár í list- og verkgreinum en þær hlutu:
Ragnheiður Júlía Rafnsdóttir hlaut viðurkenningu í heimilisfræði fyrir einstaklega vönduð og sjálfstæð vinnubrögð við frágang og bakstur.
Guðbjörg Emilía Walker hlaut viðurkenningu fyrir að vera skapandi, hugmyndarík og fara eigin leiðir í textílmennt.
Rúnar Máni Svansson hlaut viðurkenningu fyrir að vera lausnamiðaður, hugmyndaríkur og að sína góða færni og natni við vinnu sína í smíði.
Laura Taudul hlaut viðurkenningu fyrir áhugasemi í faginu, skapandi og vandvirk vinnubrögð í sjónlistum.
Viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í 8. og 9. bekk:
Hjörtur Líndal og Aleksander Klak í 8. bekk
Sólveig Hanna Davíðsdóttir í 9. bekk.
Viðurkenningar fyrir framfarir í námi í 10. bekk:
Anna Kristín Ketilsdóttir, Emilía Hrönn Aguilar og Gerður Rós Ólafsdóttir.
Viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í 10. bekk:
Viktoría Isolde hlaut viðurkenningu í íslensku, dönsku og náttúrugreinum. Danska sendiráðið veitti viðurkenningu í dönsku og Kalka veitir viðurkenningu fyrir námsárangur í náttúrugreinum.
Jóhann Gauti Halldórsson hlaut viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í stærðfræði.
Ólafur Geir Írisarson hlaut viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í ensku.
Emilía Hrönn Aguilar og Gerður Rós Ólafsdóttir hlutu viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í samfélagsgreinum.
Knattspyrnufélagið Víðir veitti viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í skólaíþróttum, hana hlaut Hafþór Örvar Sveinsson.
Hægt er að skoða fleiri myndir hér