Dagana 12.-14. september sl. heimsótti Ævar Þór Benediktsson rithöfundur grunnskólana í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum. Hann sagði frá bókinni Skólaslit sem er afrakstur læsisverkefnis sem fór sigurför um landið síðastliðið haust. Ævar las kafla úr bókinni og bauð nemendum á miðstigi upp á samtal að loknum lestri. Bókin hefur vakið mikla athygli bæði vegna sögunnar sjálfrar en ekki síður vegna frumlegrar bókarkápu en búið er að bíta eitt horn af bókinni. Nemendur voru mjög áhugasamir enda sagan í fersku minni hjá mörgum. Að lokum sagði Ævar nemendum frá því að Skólaslit 2: Dauð viðvörun væri væntanleg í október. Það er óhætt að segja að það hafi brotist út mikil fagnaðarlæti meðal nemenda þegar þeir heyrðu að nú í október verði verkefnið endurtekið með nýrri sögu. Allir grunnskólar á svæðinu munu taka þátt líkt og í fyrra þar sem skapandi nálgun ræður för. Við hvetjum fjölskyldur og heimili til að taka virkan þátt í þessu skemmtilega verkefni... ef þið þorið.
Nánar má lesa um verkefnið inni á skólaslit.is en þar kemur inn nýr kafli daglega í október, þar sem hægt verður að lesa eða hlusta á.