Bækur skipa að sjálfsögðu stórt hlutverk í Gerðaskóla allan ársins hring en í desember fáum við oft rithöfunda í heimsókn. Í ár eru aðstæður öðruvísi en vanalega líkt og við þekkjum öll en við fengum samt nokkra rithöfunda í heimsókn með aðstoð tækninnar. Höfundar heimsóttu þá nemendur í gegnum netið og lásu upp úr bókum sínum, spjölluðu og svöruðu spurningum. Það gekk vonum framar að taka á móti rithöfundum með þessum hætti og frábært að geta kynnt spennandi skáldsögur fyrir nemendum.
Það vakti t.d. mikla lukku þegar nemendur í 4. – 8. bekk hjálpuðust að í gegnum hluta af bók Ævars vísindamanns, Þín eigin undirdjúp en í bókinni þurfa lesendur að taka ákvörðun um atburðarásina og velja úr valmöguleikum um næstu blaðsíður. Guðni Líndal las úr bók sinni Bráðum áðan fyrir 5. – 10. bekk og þótti nemendum það m.a. mjög áhugavert að hann ætti heima í Skotlandi. Bergrún Íris Sævarsdóttir las úr bók sinni Töfralandið fyrir 1. – 4. bekk og voru nemendur heillaðir af hinum skemmtilega heimi bókanna sem Bergrún segir frá í sögu sinni. Gunnar Helgason og Björk Jakobsdóttir lásu úr bókum sínum Barnaræninginn og Hetja en þau sendu leikrænan og skemmtilegan upplestur af Youtube á undan sér og spjölluðu svo við nemendur í góða stund í gegnum netið. Nemendur voru mjög duglegir að spyrja og laumuðu þeirri hugmynd að Gunna að skrifa bók um Gerðaskóla, það kemur í ljós hvort sú hugmynd verði að veruleika.
Það eru sannarlega kátir nemendur í Gerðaskóla sem taka á móti jólabókaflóðinu þessi jólin, kát og klár í lestur í jólafríinu.