Rithöfundar í heimsókn.

Á mánudaginn kom Sævar Helgi (Stjörnu Sævar) rithöfundur í heimsókn til okkar og kynnti nýjustu bók sína Kúkur, piss og prump fyrir nemendum í 1. – 4. bekk.

Kúkur, piss og prump er léttlestrarbók í Vísindalæsisflokki Sævars Helga Bragasonar. Síðasta bók flokksins, Hamfarir, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barnabóka. Hér úir og grúir af frábærum fróðleik og fjörugum staðreyndum úr heimi vísindanna. Elías Rúni teiknar myndirnar í bókinni en hann hefur einstakt lag á að setja flókna hluti fram á skýran og skemmtilegan hátt.

Svo í dag kom Bergrún Íris rithöfundur og las uppúr bók sinni ,,Nammidagur" fyrir nemendur í 8.-10. bekk en bókin er framhald vinsælu unglingabókarinnar ,,Veikindadagur".

Aðeins um bókina;

Bráðfyndin hrollvekja í bland við sjóðheita ástarsögu. Dagur og Ylfa ranka við sér í líkhúsinu, hissa á að vakna aftur eftir skotárás sérsveitarinnar. Þau leggja á flótta, húkka sér far út á land og hreiðra um sig í bústað með nóg af grillkjöti í nesti … En hvaðan kom kjötið og hversu lengi geta bálskotnir unglingar verið saman í bústað án þess að hitni verulega í kolunum?

Höfundar NammiDags hafa hlotið verðskuldað lof lesenda og gagnrýnenda og hafa fengið bæði verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín.

Rithöfundarnir slógu í gegn og fengu nemendur að spyrja spurninga að upplestri loknum. Það var mikill áhugi fyrir báðum bókum.

Við þökkum þeim Bergrúnu og Sævari kærlega fyrir komuna.

Hér er hægt að skoða myndir Stjörnu Sævar og Bergrún Íris