Síðastliðinn miðvikudag var litla upplestrarhátíðin í 4. bekk haldin í Gerðaskóla. Upplestrarhátíðin fagnar nú 11 ára afmæli en hún var fyrst haldin árið 2010 í Hafnarfirði. Einkunnarorð keppninnar eru virðing, vandvirkni og ánægja. Nemendur í 4. bekk hafa sannarlega vandað sig við æfingar og undirbúning fyrir hátíðina og það hefur verið mjög gaman að fylgjast með þeirra vinnu.
Dagskrá hátíðarinnar var fjölbreytt og skemmtileg en nemendur lásu ljóð eftir Þórarinn Eldjárn, þulu eftir Kristján Hreinsson, brot úr sögu eftir Þórð Helgason, kvæði eftir Jóhannes úr Kötlum, málshætti og fleira spennandi. Skólakór Gerðaskóla og Tónlistarskólans í Garði sungu lag við upphaf hátíðarinnar.
Allir lesarar stóðu sig með stakri prýði og vöktu athygli fyrir góða einbeitingu og framkomu. Hátíðin var með eilítið öðru sniði en venjulega þar sem ekki var unnt að bjóða foreldrum að horfa á en við nýttum tæknina og var hátíðin tekin upp. Nemendur í 3. bekk voru sérstakir boðsgestir og hlustuðu af mikilli athygli á upplesturinn. Að lestrinum loknum var haldin uppskeruhátíð þar sem nemendur gæddu sér á muffins kökum sem þau bökuðu sjálf í heimilisfræði. Við óskum 4. JÁ innilega til hamingju með flotta upplestrarhátíð.