Stóra upplestrarkeppnin var haldin í Sandgerðisskóla þann 18. apríl. Þrír nemendur tóku þátt fyrir hönd Gerðaskóla en einnig fluttu þau Einarína Einarsdóttir og Hjörtur Páll Davíðsson, nemendur í 7. bekk lag á gítar ásamt Alexander Fryderyk Grybos, kennara í Tónlistarskóla Garðs.
Keppnin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu og taka nemendur 7. bekkja þátt í æfingum og undankeppni í sínum bekk. Þrír nemendur eru svo valdir í lið sem keppir á Stóru upplestrarkeppninni að vori. Lið Gerðaskóla í ár skipuðu Hjörtur Páll Davíðsson, Magnús Máni Guðnason og Sóldís Rósanna Almarsdóttir. Varamaður var Ásta Margrét Arinbjarnardóttir.
Keppendur lögðu mikinn metnað og undirbúning í keppnina og stóðu sig einstaklega vel en í ár hrepptu nemendur Gerðaskóla öll þrjú verðlaunasætin. Hjörtur Páll hlaut 1. sæti, Sóldís Rósanna 2. sæti og Magnús Máni hlaut 3. sæti.
Við óskum þeim innilega til hamingju með frábæran árangur og þökkum öllum sem komu að keppninni kærlega fyrir þátttöku, þjálfun og aðstoð.