Þann 7. október síðastliðinn fagnaði Gerðaskóli 150 ára afmæli og af því tilefni slógum við til veislu. Við héldum glæsilega afmælishátíð fyrir nemendur og foreldra að morgni afmælisdagsins. Hátíðin tókst með eindæmum vel og höfðu starfsfólk skólans ásamt nemendum undirbúið daginn í sameiningu m.a. á þemadögum vikuna áður. Sett var upp sögusýning á munum tengdum Gerðaskóla og skólastarfi síðastliðna áratugi, verkefni nemenda frá þemadögum voru til sýnis sem og afrakstur afmælislotu í Bræðingi og verkefni úr Snillitímum.
Afmælishátíð fyrir nemendur og foreldra var mjög vel sótt og skemmtileg samvera í skólanum einkenndi hátíðina. Nemendur og foreldrar komu saman í heimastofum og fóru í samfloti að skoða sögusýningu, taka myndir í myndakassa og gæða sér á afmælisköku. Veislan hélt svo áfram í íþróttahúsinu þar sem Skólahljómsveit tónlistarskóla Garðs sem skipuð er nemendum í 6., 9. og 10. bekk spiluðu frábærlega. Sirkús Íslands hélt glæsilega sýningu fyrir okkur og vakti mikla lukku meðal áhorfenda. Við lukum svo samverunni með því að syngja afmælissönginn fyrir skólann okkar.
Við þökkum nemendum og foreldrum innilega fyrir að fagna þessum áfanga með okkur á þessari skemmtilegu hátíð. Til hamingju með skólann okkar!
Hægt er að skoða myndir hér.
Sérstakar þakkir:
Velunnarar Gerðaskóla, íbúar, fyrrum nemendur, foreldrar og aðrir sem hafa lánað muni til sýningar.
Tónlistarskólinn í Garði fyrir samstarf og aðstoð.
Íþróttamiðstöðin Garði fyrir aðstoð og aðstöðu.
Starfsfólk byggðasafnsins í Suðurnesjabæ fyrir lán á munum og aðstoð.
Byggðasafn Reykjanesbæjar fyrir lán á munum og sýningarborðum.
Starfsfólk áhaldahúss fyrir aðstoðina.
Dósasel, dósasöfnun Þroskahjálpar fyrir aðstoðina.
Hilmar Bragi Bárðarson fyrir myndatöku með dróna.
Starfsfólk og nemendur Gerðaskóla fyrir frábært starf við undirbúning og framkvæmd afmælishátíðarinnar.