Gerðaskóli 150 ára – afmælishátíð og opnun sögusýningar
Hátíðleg dagskrá með tónlist og ávörpum markaði upphaf afmælishátíðarinnar og söguýning á munum tengdum Gerðaskóla og skólasatarfi síðastliðinna áratuga var opnuð formlega á hátíðinni. Una María Bergmann og Bjarni Thor Kristinsson, fyrrum nemendur Gerðaskóla sungu fyrir gesti. Einnig komu nemendur Tónlistarskóla Garðs fram og barnakór Gerðaskóla og tónlistarskólans fluttu lagið Afmælið eftir Ruth Reginalds. Eva Björk Sveinsdóttir, skólastjóri Gerðaskóla flutti ávarp, Eiríkur Hermannsson varpaði ljósi á samfélagið í Garði árið 1872 og Forseti Íslands, ávarpaði gesti.
Sögusýning í tilefni afmælisins var mjög vel heppnuð og margir fyrrum og núverandi nemendur og starfsfólk lánuðu muni tengda Gerðaskóla til sýningarinnar. Byggðasafn Suðurnesjabæjar lánaði muni sem varðveittir eru á safninu og Byggðasafn Reykjanesbæjar kom einnig að sýningunni.
Á sýningunni var gerð tilraun til að skyggnast inn í liðna tíma, skólastofu liðinna áratuga, námsumhverfi og verkefni nemenda. Nákvæm ártöl voru látin liggja á milli hluta en markmiðið var að andrúmsloftið setti af stað ferðalag um heim minninganna. Öll höfum við tengst skólasamfélaginu á mismunandi tímum, setið við skólaborð, unnið verkefni og numið hin ýmsu fræði, með huga og hönd. Skólastarf dagsins í dag fékk einnig sitt pláss en nemendur og starfsfólk unnu saman ýmis verkefni á þemadögum sem tileinkaðir voru afmælinu.
Það var okkur sönn ánægja að forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson heimsótti skólann í tilefni dagsins og erum við afar þakklát fyrir þann heiður. Fjölmargir íbúar Garðs, núverandi og fyrrverandi nemendur og starfsfólk fagnaði áfanganum með okkur og rifjuðu margir upp gamla tíma í skólanum sínum. Við þökkum gestum kærlega fyrir komuna og öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd sýningarinnar færum við innilegar þakkir.
Hægt er að skoða myndir hér.
Sérstakar þakkir:
Velunnarar Gerðaskóla, íbúar, fyrrum nemendur, foreldrar og aðrir sem hafa lánað muni til sýningar.
Tónlistarskólinn í Garði fyrir samstarf og aðstoð.
Íþróttamiðstöðin Garði fyrir aðstoð og aðstöðu.
Starfsfólk byggðasafnsins í Suðurnesjabæ fyrir lán á munum og aðstoð.
Byggðasafn Reykjanesbæjar fyrir lán á munum og sýningarborðum.
Starfsfólk áhaldahúss fyrir aðstoðina.
Dósasel, dósasöfnun Þroskahjálpar fyrir aðstoðina.
Hilmar Bragi Bárðarson fyrir myndatöku með dróna.
Starfsfólk og nemendur Gerðaskóla fyrir frábært starf við undirbúning og framkvæmd afmælishátíðarinnar.