Friðgarður hlýtur veglegan styrk

Á dögunum hlaut Friðgarður, sérúrræði í Gerðaskóla, veglegan styrk frá Blue Car Rental en fyrrtækið styrkti fjölda verkefna eftir árlegt Góðagerðarfest þeirra. Gerðaskóli vinnur nú að skynvænu skólaumhverfi þar sem leitast er við að lágmarka eða dempa áreiti í skólaumhverfinu eins og hægt er svo aðgengi sé viðunandi fyrir alla. Í Friðgarði höfum við unnið að því að skapa skynvænt skólaumherfi svo sem með tilliti til birtu, hljóðvistar og með skynvænum námsgögnum svo eitthvað sé nefnt.

Langtímamarkmiðið er að fá Gerðaskóla viðurkenndan sem skynvænan skóla og til þess að ná því þarf að aðlaga skólaumhverfið að fjölbreytileika nemendahóps okkar svo að skólinn verði aðgengilegur öllum, án aðgreiningar. Skólastarfsfólk þarf einnig að vera meðvitað um að áreiti getur orðið yfirþyrmandi fyrir marga. Fræða þarf bæði skólastarfsfólk og nemendur um margbreytileika einstaklinga og skynjun. Fræðsla eykur virðingu, samkennd og samþykki en starfsfólk fékk m.a. fræðslu um skynvænt skólaumhverfi á haustdögum.

Gerðaskóli þakkar Blue Car Rental innilega fyrir rausnarlega gjöf. Styrkurinn mun nýtast einkar vel til þess að þróa áfram skynvænt umhverfi fyrir nemendur okkar í Friðgarði.