Í haust settum við af stað þróunarverkefnið Bræðing þar sem við samþættum fimm námsgreinar og vinnum þematengd verkefni. Í bræðingi ,,bræðum“ við saman náttúrufræði, samfélagsfræði, íslensku, upplýsingatækni og list- og verkgreinar. Áhersla er lögð á að bjóða nemendum uppá aukið val við verkefnavinnu, fjölbreyttar leiðir og frjálslegra námsumhverfi.
Verkefnið fer vel af stað og hafa nemendur unnið margvísleg verkefni, svo sem myndbönd, hljóðupptökur, klippimyndir og fleira. Í dag lauk lotu þrjú þar sem áhersla var á ensku og unnu nemendur ýmis verkefni tengd hrekkjavökunni auk þess að bjóða miðstigi í hrekkjavökupartý síðasta föstudag. Nemendur hafa einnig keyrt um Ísland í skemmtilegri samfélagsfræðilotu þar sem unnið var með ýmsa staðhætti á Íslandi, útbúnar vefsíður og plaköt svo eitthvað sé nefnt.
Í næstu viku munum við lesa saman Gísla sögu Súrssonar en þar gefst nemendum tækifæri til þess að búa til sína eigin stuttmynd, hlaðvarp, listaverk, ritgerðir, bókarýni og fleira. Nemendur hafa val um verkefni en markmiðið er fyrst og fremst að við tengjumst sögunni og þeim persónum sem þar birtast. Það verður því víkingabragur á unglingastiginu fram að jólum og spennandi vikur framundan.
Bræðingur myndir