Þann 23. - 25. mars fór 7. bekkur í Skólabúðir á Úlfljótsvatni ásamt 7. bekk í Sandgerðisskóla. Haldið var af stað snemma að morgni 23. mars og eftir um tveggja tíma akstur var hópurinn kominn á staðinn. Þá tók við stutt kynning og hressing og síðan fóru allir að koma sér fyrir í herbergjum. Eftir hádegismat var haldið af stað í fjallgöngu sem gekk mjög vel þrátt fyrir nokkuð rok og smá slyddu og sýndu nemendur mikinn dugnað og þrautseigju. Betra veður tók við daginn eftir og var engu líkara en að um vorferð væri að ræða í hita og sól.
Krakkarnir tókust á við ýmis spennandi verkefni eins og bogfimi og klifur í klifurturni auk þess að stunda mikla útivist og fara í ýmsa skemmtilega leiki sem reyndu m.a. á samvinnu og leiðtogahæfni. Allir símar og snjalltæki voru skilin eftir heima og nutu nemendur þess að spjalla saman, kynnast nýjum vinum og undirbúa kvöldvökur. Á fyrri kvöldvökunni voru svokallaðar mínútuþrautir þar sem hörð keppni var á milli Gerðaskóla og Sandgerðisskóla í ýmsum skemmtilegum þrautum. Seinna kvöldið var tískusýning með fjölbreyttum áherslum, allt frá glimmeri og förðun yfir í sýningu á svefnpokum.
Ferðin tókst í alla staði mjög vel og voru nemendur til fyrirmyndar. Aðstaðan á Úlfljótsvatni er mjög góð og býður upp á fjölbreytta og skemmtilega möguleika í útivist og ævintýrum.
Ef smellt er á slóðina þá er hægt að skoða fleiri myndir: https://www.gerdaskoli.is/is/myndir/myndir-2020-2021/ulfljotsvatn-7bekkur