Gerðaskóli Garði

Stofnaður 1872

Sími: 422-7020

Sjálfsmat

Í eftirfarandi sjálfsmatsáætlun verður gerð grein fyrir því hvernig sjálfsmati verður sinnt í Gerðaskóla skólaárin 2015-2019. 


Tilgangur matsins er að leggja grunn að sívirku umbótastarfi í skólanum, greina þarfir hans fyrir breytingar og umbætur með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Markmiðið er að styrkja innviði starfsins, draga fram það sem vel er gert og benda á það sem betur má fara (Sigurlína Davíðsdóttir o.fl., 2011, bls. 7).


Samkvæmt lögum um grunnskóla (91/2008) ber hverjum skóla að meta starfið með kerfisbundnum hætti, í 36. grein stendur: 
•    Hver grunnskóli metur með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs á grundvelli 35. gr. með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á.
•    Grunnskóli birtir opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur.

Í 35 grein er rætt um markmið matsins: Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í grunnskólum er að:
a.    veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemenda,
b.    tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár grunnskóla,
c.    auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum,
d.    tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.


Það er því að mörgu að hyggja þegar sjálfsmatsáætlun er gerð og nauðsynlegt að vandað sé til verka. Í þessari áætlun verður lögð áhersla á að uppfylla þau markmið sem sett eru skv. lögum og reglugerðum en einnig verður horft til þátta sem matsfræðin leggja áherslu á. Þessu til viðbótar verður horft til viðmiðunarlista vegna ytra mats skóla sem gert er af Námsmatsstofnun fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. 

Sjálfsmatsáætlun 2015-2019