Gerðaskóli Garði

Stofnaður 1872

Sími: 422-7020

Stefna Gerðaskóla gegn einelti

Einelti og annað ofbeldi er ekki liðið í Gerðaskóla. Starfsfólk Gerðaskóla starfar samkvæmt áætlun Olweusar gegn einelti og andfélagslegri hegðun. Áætlunin byggir vísindalegum rannsóknum og er ætlað að draga úr möguleikum á einelti og skapa skólaumhverfi sem einkennist af virðingu, jákvæðum samskiptum og ákveðnum römmum vegna óviðunnandi atferlis.

Starfsfólk Gerðaskóla leggur áherslu á samvinnu við nemendur og foreldra/forráðamenn þeirra í forvarnarstarfi sem þessu svo hægt sé að virkja sem flesta til þátttöku og samábyrgðar á góðum skólabrag og velferð allra nemenda. Samstarf allra aðila skólasamfélagsins er grundvöllur þess að vel til takist og að hægt sé sð leysa mál sem upp koma á sem farsælastan hátt.

 

Ferillýsing í eineltismálum

Einelti er ekki liðið undir neinum kringumstæðum og er litið á það sem alvarlegt brot á skólareglum. Ávallt skal gæta trúnaðar í meðferð eineltismála. Mikilvægt er að allir sem hafa grun eða vitneskju um eineltismál tilkynni það strax til skólans svo að hægt sé að vinna markvisst að því að stöðva eineltið. Ef vitneskja um einelti berst til skólans, mun starfsfólk skólans vinna samkvæmt eftirfarandi ferillýsingu:  
 

 1. Grunur um einelti tilkynnist til umsjónarkennara, skólastjórnenda eða námsráðgjafa.

 2. Umsjónarkennara er gerð grein fyrir málinu ef tilkynning berst til annarra.

 3. Umsjónarkennari kannar málið hjá nemendum, kennurum og foreldrum eftir því sem við á. Hann getur eftir atvikum lagt kannanir fyrir nemendur og rætt einslega við nemendur til að fá skýra mynd af því sem er í gangi.

 4. Mikilvægt er að kennari haldi skráningu um málið og það sem gert er.

 5. Umsjónarkennari ráðfærir sig við eineltisráð eða stjórnendur um framhald máls eftir að hann hefur aflað frekari upplýsinga.

 6. Ef um einelti er að ræða er haft samband við foreldra þolanda og geranda og gerð grein fyrir stöðu mála.

 7. Allt starfsfólk er upplýst um málið svo hægt sé að fylgjast með, til að tryggja sem best öryggi barnanna og samskipti séu í lagi.

 8. Eineltisráð og stjórnendur vinna markvisst að því að uppræta eineltismál með aðferðafræði Olweusar.

 9. Mikilvægt er að umsjónarkennari/námsráðgjafi hitti þolanda og geranda reglulega og hafi reglulegt samband við foreldra.

 10. Ef ekki tekst að leysa málið er því vísað til nemendaverndarráðs ásamt skráningu á málsatvikum.

 

 

 

Eineltisráð

Við Gerðaskóla er starfandi ráðgefandi eineltisteymi sem er kennurum til stuðnings við úrlausn eineltismála og sinnir fyrirbyggjandi aðgerðum í eineltismálum. Teymið miðlar sérþekkingu og heldur saman upplýsingum. Safnar efni um eineltisfræðslu fyrir öll skólastigin og byggir upp gagnabanka fyrir kennara.

Eineltisráð Gerðaskóla 2016- 2017

Bára Bragadóttir, skólahjúkrunarfræðingur

Guðný Eyþórsdóttir, náms- og starfsráðgjafi

Jóhann Geirdal, skólastjóri

Ragnhildur Einarsdóttir, aðstoðarskólastjóri

Sigrún Sigurðardóttir, þroskaþjálfi

 

 

Um einelti:

Einelti er ofbeldi sem aldrei er réttlætanlegt. Talað er um einelti þegar einstaklingur verður fyrir endurteknu og langvarandi áreiti eða útskúfunog á erfitt með að verjast því. Í einelti felst ójafnvægi valds og geta birtingarmyndir eineltis verið af margvíslegum toga, bæði líkamlegar og andlegar, duldar og sýnilegar.

Útskúfun og afskiptaleysi. Barn má ekki vera með í leik eða er ekki boðið með á atburði, s.s. í afmæli. Það er ekki látið vita þegar eitthvað stendur til. Ekki er tekið tillit til skoðana og tillagna einstaklings, þær eru virtar að vettugi.

Neikvæðar athugasemdir, t.d hvað varðar útlit, klæðnað eða athafnir, uppnefni, fliss eða augngotur.

Eigum stolið, þær vanvirtar eða eyðilagðar.

Þvinganir: barn fengið til að gera eitthvað niðurlægjandi og stríðir gegn réttlætiskennd.

Líkamlegt ofbeldi: t.d. lemja, hrinda, sparka

Sögusagnir og lygi: eru bornar út um einstakling eða fjölskyldu hans.

Rafrænt/skriflegt einelti: tölvuskeyti, smá skilaboð, krot, bréfasendingar.

 

 

Um rafrænt einelti

Neteinelti er ein af þeim hættum sem steðja að börnum og ungmennum í dag. Rannsóknir sýna að á grunnskólaaldri er netnotkun orðin hluti af þeirra daglega lífi. Neteinelti á sér aðallega stað á samfélagsmiðlum og birtingarmyndir þess geta verið margvíslegar. Má þar helst nefna særandi einkaskilaboð, niðrandi ummæli á samfélagsmiðlum, útskúfun, misnotkun á auðkenni fórnarlambs, lygasögur og birtingar á vandræðalegu eða niðrandi myndefni.

Einelti eða útlokun á samfélagsmilum er eitt helsta áhyggjuefni margra ungmenna, þ.e. hvernig athugasemdir eru gerðar við myndir sem þeir setja inn, hve mörgum líkar við myndirnar og hve marga vini hver á. Hópeðli ungmenna getur svo orðið að keðjuverkun eineltis eða útilokunar á samfélagsmiðlum; ungmenni vill ekki vera vinur einhvers sem einhver annar vill ekki vingast við. Sama á líka við um myndir.

Áður voru heimilin gjarnan griðarstaðir þeirra sem lentu í einelti, en nú er einstaklingurinn hvergi óhultur, því nettengdir símar sem stöðugt gefa til kynna færslur á samfélagsmiðlum eða sms, eru í vösum flestra ungmenna. Þrátt fyrir að ljót samskipti geti átt sér stað nánast hvar sem er á netinu ber að vara sérstaklega við samfélagsmiðlum þar sem notendur geta átt í nafnlausum samskiptum

Mikilvægt er að foreldrar fylgist með notkun barna sinna á samfélagsmiðlum, ræði þessa þætti við þau og hvetji þau til að vera hugrökk og sjálfstæð og útiloka ekki ákveðna bekkjarfélaga á samfélagsmiðlum. Þess má geta að á Facebook er 13 ára aldurstakmark.

Gott er einnig í þessu samhengi að skoða síðuna: http://www.saft.is/  sem er heimasíða samtaka foreldra um ábyrga tölvunotkun. Einnig er þörf að benda á áhættur samskipta á Facebook, Twitter, Snapchat, Instagram og mörgum öðrum samskiptasíðum.

 

Afleiðingar eineltis

Einelti veldur þjáningum sem geta fylgt þolandanum ævilangt. Því lengur sem einelti fær að þrífast, því alvarlegri áhrif getur það haft á þolanda þess, því sjálfsmynd viðkomandi er markvisst brotin niður. Sá sem lendir í einelti segir oft ekki frá því. Hann fer jafnvel að trúa því að hann eigi eineltið skilið og sé lítils virði. Við langvarandi einelti getur hegðun og framkoma breyst hjá þeim sem fyrir verður og hann verður ýmist hlédrægur og lætur fara lítið fyrir sér, eða jafnvel ágengur við aðra til að reyna að öðlast viðurkenningu. Hann missir trúna á sjálfum sér og missir traust til annarra. Einelti getur líka valdið líkamlegum kvillum, s.s. verkjum í höfði og maga auk streitu. Hann vill oft ekki fara í skólann og ber fyrir sig vanlíðan.

Þeir sem hafa lent í langvarandi einelti geta átt erfitt með að tengjast öðrum tilfinningaböndum og/eða að trúa því að þeir séu metnir að verðleikum. Höfnunartilfinningin er sterk. Til lengri tíma getur einelti valdið kvíða og þunglyndi. Því er mikilvægt að þeir fái aðstoð við að byggja upp sjálfstraust og efla sjálfsmynd sína. Nauðsynlegt er að þeir fái trúna á sjálfa sig og séu metnir að verðleikum, því sá sem lendir í einelti ber aldei ábyrgð á því.

Rannsóknir sýna að margir þeirra sem hafa orðið fyrir langvarandi einelti eru líklegri en aðrir til að eiga við geðræn vandamál að stríða síðar á lífsleiðinni svo sem  þunglyndi, félagsfælni og kvíða. Stundum verður niðurbrotið algert og eineltið leiðir til sjálfsvígs en bæði íslenskar og erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli eineltis og sjálfsvígshugsana, sjálfsvígstilrauna og sjálfsvíga. 

Einelti getur þrifist nánast hvar sem er; á heimilum, í skóla, í félagsstarfi, í tómstundum og á netinu. Einelti í barnahópum er hins vegar oft dulið og á sér gjarnan stað þar sem enginn fullorðinn verður vitni að því, t.d. á skólalóðinni, á göngum, í kennslustofunni, í búningsklefum, á salernum eða á leið í eða úr skóla.

Mikilvægt er að hvetja börn til að segja frá og mikilvægi þess að vera ekki óvirkir áhorfendur heldur styðja skólafélaga sína og verja. Það sama á við um skólasamfélagið í heild sinni, að fólk í nærumhverfi barnanna sé meðvitað um birtingarmyndir og áhrif eineltis og skipti sér af og tilkynni skólanum ef grunur er um að einelti eigi sér stað meðal nemenda.

 

Hugsanlegar vísbendingar um að barn sé lagt í einelti

 • Vill ekki lengur fara í skólann.
 • Líkamlegar kvartanir t.d. höfuðverkur, magaverkur, sérstaklega á morgnana
 • Breyttar matarvenjur, lystarleysi.
 • Barnið verður niðurdregið eða órólegt á sunnudagskvöldum eða síðasta kvöldið í skólaleyfi
 • Sefur illa, fær martraðir og grætur jafnvel í svefni.
 • Barnið er niðurdregið, virðist óhamingjusamt eða er þunglynt.
 • Það fær lélegri einkunnir og áhugi á skólanum dvínar.
 • Barnið kemur heim úr skóla eða tómstundastarfi skítugt, blautt eða í rifnum fötum. Skólabækurnar eru skemmdar og hlutir týnast. Barnið getur ekki gert almennilega grein fyrir því sem gerðist.
 • Óútskýranleg skapofsaköst og/eða grátköst
 • Barnið neitar að segja frá hvað amar að því
 • Árásargirni og erfið hegðun
 • Það getur ekki gefið trúverðuga skýringu á mari, skeinum og sárum.
 • Barnið er alltaf eitt, bekkjarfélagar/leikfélagar koma ekki lengur heim með barninu.
 • Barnið hættir að sinna náminu, einkunnir lækka, einbeitingarörðugleikar.
 • Það hnuplar eða biður um meiri peninga en það er vant (til að blíðka þá sem leggja það í einelti).

 

 

 

Annað

 • Mikilvægt er að hafa í huga að allir geta orðið fyrir einelti. Stundum er eitthvað ákveðið útlit eða eiginleikar frekar viðurkenndir sem þeir ,,réttu“ í ákveðnum hópnum og annað er ekki viðurkennt. Gerendur geta nánast notað hvað sem er í að fóðra einelti, hvort sem um er að ræða útlit, framkomu, skoðanir, veikleika eða jafnvel hæfileika og styrkleika annarra. Öfund getur einnig verið orsök eineltis. Því getur hver sem er lent í einelti
 • Einelti gerist oftast þar sem enginn sér og getur því farið framhjá þeim fullorðnu ef enginn segir frá. Einelti gerir ekki mannamun. Allir geta orðið fyrir því og áríðandi er að allir þekki einkenni eineltis.
 • Einstaka stríðni eða átök teljast ekki einelti en geta samt verið meiðandi og því að aðstoða börn við að leysa slíka árekstra svo þau leiði ekki af sér einelti seinna meir.
 • Hafa verður í huga að gerendur eru ekki alltaf meðvitaðir um áhrif hegðunar sinnar og upplifun þolenda. Allir geta lent í eineltisaðstæðum, hvort heldur sem gerendur, þolendur eða meðvirkir áhorfendur. Einelti gjarnan skoðað út frá gerendum, þolendum og svo áhorfendum en þetta er ekki alltaf svona einfalt, því sami einstaklingurinn getur verið í öllum hlutverkunum, bara í mismunandi aðstæðum.

 

Hvað geta foreldrar gert þegar barnið þeirra er þolandi:

 • Hlustað vel á barnið.
 • Brugðist við vanda barnsins með skilningi, þolinmæði og umhyggju.
 • Látið barnið finna að það á ekki sök á eineltinu.
 • Haft samband við umsjónarkennara, námsráðgjafa og /eða stjórnendur skólans.

 Hvað geta foreldrar gert þegar þeirra barn er gerandi?

 • Haft samband við skólann en þar er hægt að setja í gang viðeigandi aðgerðir.
 • Reiði og skammir duga skammt.  Árangursríkara er að setjast niður og ræða málin.  Skýra þarf út fyrir barninu að það er alveg ólíðandi að særa aðra, bæði líkamlega og andlega.
 • Gefið skýr skilaboð um að einelti sé alvarlegt mál og barnið eigi að hætta því.
 • Gott er að fá barnið til að setja sig í spor þolenda og ímynda sér hvernig þeim líður því þannig eflum við samkennd barnsins með öðrum.
 • Skoðað eigin hegðun og hegðun annarra í fjölskyldunni.
 • Fylgst vel með hvernig barnið ver frítíma sínum og með hverjum.
 • Það er mikilvægt að barnið viti að foreldrarnir eru í sambandi við kennarann og fylgjast með framvindu málsins. Mikilvægt er að muna eftir að hrósa barninu ef vel gengur.

 

Gildi sem gott er að tileinka sér:

Umburðarlyndi: Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans  og að koma fram við alla af virðingu.

Virðing: Að viðurkenna og taka tillit til allra barna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða mismunandi hátterni annarra.

Umhyggja: Að sýna öðrum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.

Hugrekki: Að þora að láta í sér heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.

 

Verum vinir :)

Hér fyrir neðan er eyðublað til að koma ábendingum til skil til skólans

Tilkynning - grunur um einelti